Lífeindafræði í HÍ

Lífeindafræðingar fást við rannsóknir á lífsýnum í þeim tilgangi að greina sjúkdóma, finna meðferðarmöguleika og stuðla að framförum í læknavísindum. Mikilvægi náms í lífeindafræði liggur í þekkingu sem stuðlar að öruggri greiningu, meðferð og forvörnum gegn sjúkdómum.

Á rannsóknastofu Háskóla Íslands í Stapa eru til staðar Cobas c311 og Cobas e411 greiningartæki frá Roche Diagnostics og einnig PURELAB Chorus vatnshreinsitæki (eimingartæki) frá ELGA. Lyra sá um uppsetningu á tækjunum og veitir þeim þjónustu.

Í klínískri lífefnafræði hjá Erlu Bragadóttur, lífeindafræðingi og aðjúnkt hjá Háskóla Íslands, fer fram áhugavert nám þar sem nemendur í lífeindafræði spreyta sig í ýmsum verkefnum og rannsóknum. Við fengum að kíkja við, þar sem fyrsti hópur af þremur var í tíma en nemendur eru 36 talsins. Ásamt Erlu, var Edda Ásgerður Skúladóttir, lífeindafræðingur og aðstoðarkennari í verklegri kennslu til staðar fyrir nemendur sem voru að greina sýni í Cobas greiningartæki á rannsóknastofunni. Um er að ræða verklegan hluta náms hjá nemendum í lífeindafræði. Meðfylgjandi myndir voru teknar við þetta tilefni.

Í Lífeindafræði er fjölbreyttum kennsluaðferðum beitt og mikil áhersla lögð á verklega þáttinn. Markmiðið er að mennta lífeindafræðinga með fjölþættri þekkingu og undirbúa þá fyrir störf á öllum tegundum rannsóknastofa á heilbrigðissviði og víðar.

Deila: